Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 3/2024-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 3/2024

Miðvikudaginn 20. mars 2024

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með kæru, dags. 15. desember 2023, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 25. október 2023 um synjun bóta til kæranda úr sjúklingatryggingu.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um bætur úr sjúklingatryggingu með umsókn, dags. 2. febrúar 2022, sem barst Sjúkratryggingum Íslands sama dag, vegna afleiðinga meðferðar sem fór fram á C þann X. Sjúkratryggingar Íslands synjuðu umsókn kæranda með ákvörðun, dags. 25. október 2023, á þeim grundvelli að krafa um bætur úr sjúklingatryggingu væri fyrnd samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 15. desember 2023. Með bréfi, dags. 9. janúar 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Greinargerð Sjúkratrygginga Íslands barst með bréfi, dags. 17. janúar 2024. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 22. janúar 2024, var greinargerð Sjúkratrygginga Íslands send lögmanni kæranda til kynningar. Engar athugasemdir bárust.


 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi óskar eftir að ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 29. mars 2023 verði endurskoðuð og að krafa hennar sé ófyrnd og hún eigi rétt á bótum samkvæmt lögum nr. 111/2000 vegna sjúklingatryggingaratburðarins þann X.

Í kæru er greint frá því að kærandi hafi sótt um bætur úr sjúklingatryggingu samkvæmt lögum nr. 111/2000 með tilkynningu sem send hafi verið Sjúkratryggingum Íslands þann 2. febrúar 2022. Með bréfi, dags. 25. október 2023, hafi Sjúkratryggingar Íslands hafnað því að kærandi ætti bótarétt úr sjúklingatryggingu samkvæmt framangreindum lögum, þar sem stofnunin hafi talið að krafa hennar væri fyrnd samkvæmt 19. gr. laganna. Kærandi geti á engan hátt sætt sig við framangreinda niðurstöðu Sjúkratrygginga Íslands.

Málavöxtum sé að mestu lýst í ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 25. október 2023. Kærandi hafi gengist undir gerviliðsaðgerð á vinstri mjöðm þann X. Í þeirri aðgerð hafi komið sprunga í lærhnútu, sem ákveðið hafi verið að meðhöndla án skurðaðgerðar. Þann X hafi lærhnútan í vinstri mjöðm brotnað vegna sprungumyndunarinnar sem hafi komið við aðgerðina. Hafi verið kærandi inniliggjandi á Landspítala í viku eftir það og hafi verið tekin sú ákvörðun að gera enga aðgerð heldur leyfa brotinu að gróa. Kærandi hafi verið svo tekin til enduraðgerðar hjá D bæklunarlækni þann X á Landspítala. Í aðgerðinni hafi verið tekið bein úr mjaðmarkambi og beinið sett á throcanter svæðið og throcanterinn dreginn niður á réttan stað og festur með svokallaðri accord plötu. í eftirliti hjá D þann X hafi kærandi vaggað og hafi þá komið í ljós að gerviliður í hægri mjöðm hafi losnað vegna álags á þá vinstri. Hafi hún í kjölfarið verið tekin til aðgerðar á hægri mjöðm. Í eftirliti hjá D þann X hafi komið fram að kærandi væri enn að glíma við verki og væri með minni styrk og úthald í vinstri mjöðm. Einu og hálfu ári síðar hafi platan, sem sett hafi verið í vinstri mjöðm, verið fjarlægð. Kærandi hafi síðan gengist undir mat á varanlegu tjóni vegna þessa atburðar þann X.

Í bréfi Sjúkratrygginga Íslands, dags. 25. október 2023, sé því haldið fram að krafa kæranda sé fyrnd, sbr. 19. gr. laga nr. 111/2000. Umsókn um bætur hafi borist 2. febrúar 2022 en þá hafi verið liðin X ár og rúmlega X mánuðir frá því að aðgerðin hafi átt sér stað. Það væri álit Sjúkratrygginga Íslands að kæranda hafi mátt vera tjónið ljóst í síðasta lagi þann X þegar hún hafi leitað á Landspítala og brot í lærhnútunni hafi greinst á röntgenmynd. Fyrningarfrestur 1. mgr. 19. gr. laga um sjúklingatryggingu hafi verið liðinn þegar tilkynning hafi borist Sjúkratryggingum Íslands.

Kærandi sé ósammála framangreindri niðurstöðu Sjúkratrygginga Íslands. Í 19. gr. laga nr. 111/2000 komi fram að fjögurra ára fyrningarfrestur ákvæðisins byrji að líða þegar umsækjandi hafi fengið eða hafi mátt fá vitneskju um tjón sitt. Þann X hafi greinst brot í lærhnútunni og samkvæmt gögnum málsins hafi verið tekin sú ákvörðun að gera ekki að þessu broti heldur leyfa því að gróa af sjálfu sér. Kærandi hafi ekki gert sér grein fyrir því á þeim tímapunkti að um tjón væri að ræða, enda hafi henni verið tjáð að brotið myndi gróa af sjálfu sér með tímanum. Í vottorði D, dags. X, komi fram að kærandi hafi verið send til hans X vegna áframhaldandi verkja. D hafi þá skoðað myndir frá því í X sem hafi sýnt að brotið hafi ekki verið að gróa eins og vonast hafi verið til og að vöðvafestan hafi gengið til. Því hafi verið ákveðið að gera aðra aðgerð á vinstri mjöðm kæranda þann X. Hún hafi verið inniliggjandi í fjóra daga og svo vísað til heimilislæknis. Í vottorði heimilislæknis komi fram að kærandi hafi leitað til heimilislæknis X og hafi enn verið verkjuð. Þá hafi hún leitað til heimilislæknis þann X og vaggað við göngu. Henni hafi fundist hún vera sterkari í mjöðminni eftir aðgerðina en kvaðst enn vera að glíma við verki. Í vottorði heimilislæknis komi fram að henni hafi verið ráðlögð hreyfiþjálfun og að nýjar myndir yrðu teknar eftir tvo mánuði og ætti kærandi þá að koma í endurkomu.

Í X hafi hún síðan verið tekin til aðgerðar á hægri mjöðm hjá D þar sem rannsóknir hafi einnig sýnt skaða á þeirri mjöðm. Í vottorði D komi fram að lokaeftirlit hafi verið X. Þar hafi komið fram að vel gengi með hægri mjöðm og að kærandi væri ekki verkjuð þar. Hún væri hins vegar alltaf ósátt við vinstri fótinn. Hún hefði ekki náð sér hvað varðar styrk og úthald og væri aldrei óþægindalaus. Myndir sem teknar hafi verið þann dag hafi enn sýnt brot á beininu sem hafi verið undir plötunni sem fest hafi verið í það.

Í vottorði heimilislæknis séu síðan raktar frekari komur kæranda til heimilislæknis eftir komuna til D í X. Þar komi fram að kærandi hafi áfram verið verkjuð og hafi heimilislæknir þá velt fyrir sér hvort það gæti lagað einkenni kæranda að taka plötuna sem sett hafi verið í vinstri mjöðmina í aðgerðinni. Hafi þetta verið borið undir D og í nótu heimilislæknis frá X segi að D hafi viljað að kærandi myndi hvíla yfir sumarið og þetta yrði síðan skoðað um haustið. Í vottorði heimilislæknis segi að kærandi hafi áfram verið verkjuð um haustið og því hafi verið ákveðið að taka plötuna. Sú aðgerð hafi farið fram þann X og í nótu heimilislæknis frá X segi að aðgerðin hafi verið gerð vegna þess að kærandi hafi verið með þráláta verki þrátt fyrir plötuna. Því hafi verið ákveðið að taka hana til að lina einkenni kæranda. Í vottorði heimilislæknis komi fram að kærandi hafi átt að fara í eftirlit hjá D sex vikum síðar. Hún hafi svo leitað til læknisins X og verið með áframhaldandi verki. Henni hafi verið ráðlagt að styrkja mjöðmina og stunda sjúkraþjálfun. Fram komi að sjá ætti hvernig þróunin yrði næstu mánuði. Teknar hafi verið myndir sem hafi sýnt óbreytta stöðu. Í matsgerð E bæklunarlæknis komi fram að kærandi hafi farið á matsfund þann X. Stöðugleikatímapunktur hafi verið X.

Kæranda hafi ekki orðið fyllilega ljóst að um varanlegar afleiðingar hafi verið að ræða af sjúklingatryggingaratburðinum fyrr nokkuð hafi verið liðið frá því að platan, sem sett hafi verið í mjöðmina í aðgerðinni, hafi verið tekin, þ.e. einhverjum mánuðum eftir X. Á þessum tímapunkti hafi kærandi undirgengist aðgerð, verið í sjúkraþjálfun og platan að lokum verið tekin í þeirri von að einkennin myndu lagast. Á þessum tímapunkti hafi kæranda verið orðið fyllilega ljóst að það myndu þau ekki gera og henni því ljóst að hún hefði orðið fyrir tjóni við sjúklingatryggingaratburðinn. Kærandi hafi tilkynnt sjúklingatryggingaratburðinn til Sjúkratrygginga Íslands með tilkynningu þann 2. febrúar 2022. Það sé vel innan fjögurra ára frá því að henni hafi orðið ljóst að hún hafði orðið fyrir tjóni.

Í öllu falli telji kærandi ótækt að miða við að henni hafi verið orðið ljóst strax þann X að um tjón væri að ræða sem hún ætti rétt á að fá bætt úr sjúklingatryggingu. Líkt og fram komi að framan hafi vonir staðið til að beinið myndi gróa saman á ný án aðgerðar og að kærandi yrði því tjónlaus af þessu atviki. Það hafi ekki verið fyrr en í X sem ljóst hafi orðið að beinið hafi ekki gróið saman og því hafi verið ákveðið að kærandi myndi undirgangast aðgerð þar sem tengja hafi átt beinið saman á ný. Sú aðgerð hafi farið fram þann X og hafi þá vöðvafestan í vinstri mjöðminni verið fest með járnplötu. Líkt og fram komi í gögnum málsins hafi vonir staðið til þess að eftir þessa aðgerð myndi beinið gróa saman með réttum hætti. Í öllu falli hljóti að þurfa að miða við að kæranda hafi ekki verið orðið ljóst að um bótaskylt tjón væri að ræða fyrr en í fyrsta lagi í lokaeftirliti aðgerðarlæknisins D þann X þar sem fram hafi komið að myndir sem teknar hafi verið þann dag hafi enn sýnt brot á beininu sem hafi verið undir plötunni sem fest hafði verið í það.

Kærandi bendi þó á að samkvæmt vottorði heimilislæknis virðist beinið hafa gróið betur frá þessum degi og þangað til platan hafi verið fjarlægð í X, en þar komi fram að myndataka þann X hafi ekki sýnt neitt merki um rof og því hafi vöðvafestan virst hafa fest sig við bein. Kærandi hafi ekki getað vitað að hún ætti kröfu um bætur vegna sjúklingatryggingaratburðarins fyrr en ljóst hafi verið hver árangur aðgerðarinnar í X hafi verið. Á þessum tímapunkti hafi það loks verið orðið ljóst. Aðgerðin hafi skilað þeim árangri að beinið hafi gróið við vöðvafestuna en þrátt fyrir það hafi kærandi enn verið með einkenni. Kærandi telji að eðlilegra sé að miða við þennan tímapunkt heldur en X. Hvort sem miðað sé við að kæranda hafi orðið ljóst að sjúklingatryggingaratburðurinn hafi valdið henni tjóni X eða X sé ljóst að fyrningarfrestur 19. gr. laga nr. 111/2000 hafi ekki verið liðinn þegar kærandi hafi tilkynnt sjúklingatryggingaratburðinn þann 2. febrúar 2022.

Við mat á því hvort fyrningarfrestur sé liðinn eða ekki þurfi samkvæmt dómaframkvæmd Hæstaréttar í fyrsta lagi að líta til þess hvenær tjónþoli hafi áttað sig á því að mistök hafi verið gerð og í öðru lagi hvenær hann hafi áttað sig á því að hann hafi orðið fyrir tjóni af völdum þessara mistaka. Hér vísist til dóms Hæstaréttar í máli nr. 17/2016. Um fyrningu samkvæmt 19. gr. laganna hafi sagt í niðurstöðu dómsins:

,,Sú afmörkun á fyrningarfresti i þessu lagaákvæði, að hann byrji að líða þegar tjónþoli fær eða má hafa fengið vitneskju um tjón sitt, verður eðli máls samkvæmt að taka mið af vitneskju um tjón af völdum atvika, sem varðað geta bótaskyldu samkvæmt lögum nr. 111/2000, en ekki vitneskju um tjón af undirliggjandi sjúkdómi, sem vegna mistaka hefur ekki tekist að ráða fulla bót á. Þessu til samræmis gat fyrningartími kröfu áfrýjanda samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laganna ekki byrjað að líða við það eitt að honum hafi orðið eða mátt verða ljóst að blóðtappar, sem hann fékk í heila, hafi valdið honum tímabundnu og hafi varanlegu heilsutjóni, heldur þurfti hann í þessu skyni að vita eða mega vita að mistök hafi verið gerð við meðferð hans á Landspítala og að þau hafi sérstaklega leitt til tjóns. Þegar dóttir áfrýjanda ritaði landlækni bréf 29. september 2003, sem virðist hafa geymt kvörtun vegna meðferðar áfrýjanda á Landspítala, lá hann enn á taugalækningadeild sjúkrahússins og hafi verið alls óljóst hvort heilablóðföll hans myndu hafa varanlegar afieiðingar. “

Við mat á því hvort fyrningarfrestur samkvæmt. 19. gr. laga nr. 111/2000 hafi verið liðinn eða ekki beri nefndinni einnig að líta til markmiðs laganna, sem sé að veita sjúklingum víðtækari bótarétt en þeir eigi samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar og gera þeim jafnframt auðveldara að ná fram rétti sínum. Þetta sjónarmið eigi að leiða til þess að tjónþoli njóti vafans um fyrningu.

III. Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að kærandi hafi sótt um bætur úr sjúklingatryggingu samkvæmt lögum nr. 111/2000 með umsókn sem hafi borist Sjúkratryggingum Íslands þann 2. febrúar 2022. Sótt hafi verið um bætur vegna afleiðinga meðferðar sem hafi farið fram á C þann X. Umsóknin hafi verið til skoðunar hjá Sjúkratryggingum Íslands og hafi málið verið að fullu talið upplýst. Með ákvörðun, dags. 25. október 2023, hafi umsókn kæranda um bætur verið synjað á þeim grundvelli að bótakrafan væri fyrnd samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga um sjúklingatryggingu.

Að mati Sjúkratrygginga Íslands komi afstaða stofnunarinnar til kæruefnis fram með fullnægjandi hætti í ákvörðunum stofnunarinnar, dags. 25. október 2023. Því þyki ekki efni til að svara kæru efnislega með frekari hætti. Sjúkratryggingar Íslands vísi því til þeirrar umfjöllunar sem fram komi í gögnum málsins. Engin ný gögn hafi verið lögð fram sem taka þurfi afstöðu til.

Þó telji Sjúkratryggingar Íslands rétt að benda á varðandi athugasemd í kæru um fyrningu, að í 1. mgr. 19. gr. komi fram að kröfur um bætur úr sjúklingatryggingu fyrnist þegar fjögur ár séu liðin frá því að tjónþoli hafi fengið eða hafi mátt fá vitneskju um tjón sitt. Fyrningarfrestur byrji að líða strax og sjúklingi megi vera ljóst að hann hafi orðið fyrir tjóni samkvæmt orðalagi ákvæðisins. Hvenær sjúklingi sé nákvæmlega ljóst um umfang tjónsins hafi ekki þýðingu samkvæmt ákvæðinu. Í því sambandi sé jafnframt rétt að benda á að úrskurðarnefndin hafi margoft staðfest að það ráði ekki úrslitum hvenær kæranda hafi orðið afleiðingar ljósar að fullu, heldur hvenær kærandi hafi mátt vita af því að hann hefði orðið fyrir tjóni, óháð því hversu miklar eða varanlegar afleiðingarnar kynnu að vera. Megi þar til að mynda nefna úrskurði í málum nr. 168/2016, 172/2016, 285/2016, 338/2017 og 603/2022.

Samkvæmt framangreindu verði upphafsfrestur fyrningar því ekki miðaður við hvenær kærandi hafi vitað hvert tjón sitt væri, þ.e. umfang þess, heldur verði að miða við hvenær hann hafi fengið eða mátt fá vitneskju um tjón sitt. Það hafi, líkt og fram komi í ákvörðun, dags. 25. október 2023, verið þann X þegar hún hafi leitað á Landspítala og brot hafi greinst á röntgenmynd.

Með vísan til framangreinds beri að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

Í ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 25. október 2023 segir að samkvæmt umsókn um bætur úr sjúklingatryggingu, móttekinni 2. febrúar 2022, hafi kærandi gengist undir gerviliðsaðgerð á vinstri mjöðm á C þann X. Í aðgerðinni hafi komið sprunga í lærhnútu og hafi verið ákveðið að meðhöndla kæranda án skurðaðgerðar. Þann X hafi lærhnútan í vinstri mjöðm brotnað vegna sprungumyndunarinnar sem hafi komið við aðgerðina. Kærandi hafi gengist undir enduraðgerð þann X á Landspítala vegna brotsins.

Við ákvörðun um hvort einstaklingur eigi rétt til bóta samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu sé litið til þess hvort tjón megi rekja til þess að ekki hafi verið rétt staðið að meðferð sjúklings, mistaka heilbrigðisstarfsmanna, vangreiningar, tækjabúnaðar og/eða áhalda, hvort beita hefði mátt annarri meðferðaraðferð eða tækni eða hvort heilsutjón hafi orðið vegna sýkingar eða annars fylgikvilla sem ósanngjarnt þyki að sjúklingur þoli bótalaust. Fylgikvilli þurfi að vera alvarlegur í samanburði við veikindi sjúklings og tiltölulega sjaldgæfur svo skilyrði séu fyrir greiðslu bóta.

Í 19. gr. laganna sé að finna reglur um fyrningu bótakrafna. Samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins fyrnist kröfur um bætur úr sjúklingatryggingu þegar fjögur ár séu liðin frá því að tjónþoli hafi fengið eða hafi mátt fá vitneskju um tjón sitt. Fyrningarfrestur byrji að líða um leið og sjúklingi megi vera ljóst að hann hafi orðið fyrir tjóni samkvæmt orðalagi ákvæðisins. Hvenær sjúklingi sé nákvæmlega ljóst um umfang tjóns hafi ekki þýðingu samkvæmt ákvæðinu.

Umsókn um bætur úr sjúklingatryggingu hafi borist Sjúkratryggingum Íslands þann 2. febrúar 2022, en þá hafi verið liðin X ár og X mánuðir frá því að aðgerðin hafi átt sér stað þann X. Með vísan til þess sem fram komi í umsókn sé það álit Sjúkratrygginga Íslands að kæranda hafi mátt vera tjónið ljóst í síðasta lagi þann X þegar hún hafi leitað á Landspítala og brot í lærhnútunni hafi greinst á röntgenmynd. Því sé ljóst að fyrningarfrestur 1. mgr. 19. gr. laga um sjúklingatryggingu hafi verið liðinn er tilkynning hafi borist Sjúkratryggingum Íslands.

Með vísan til þess sem að framan greini og fyrirliggjandi gagna málsins sé það mat Sjúkratrygginga Íslands að krafa um bætur úr sjúklingatryggingu sé fyrnd samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu. Ekki sé því heimilt að verða við umsókn kæranda um bætur úr sjúklingatryggingu.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar synjun Sjúkratrygginga Íslands um bætur á grundvelli laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu.

Til álita kemur í máli þessu hvort kærandi geti átt rétt til bóta úr sjúklingatryggingu vegna meints sjúklingatryggingaratviks sem hafi átt sér stað við meðferð kæranda á C X. Með hinni kærðu ákvörðun var umsókn kæranda synjað á þeim forsendum að fyrningarfrestur 19. gr. laga um sjúklingatryggingu hafi verið liðinn þegar tilkynning hafi borist Sjúkratryggingum Íslands.

Í 1. mgr. 19. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu segir að kröfur um bætur samkvæmt lögunum fyrnist þegar fjögur ár eru liðin frá því að tjónþoli fékk eða mátti fá vitneskju um tjón sitt. Í 2. mgr. 19. gr. segir að krafan fyrnist þó eigi síðar en þegar tíu ár eru liðin frá atvikinu sem tjón hafði í för með sér.

Til álita kemur í máli þessu frá hvaða tíma kærandi fékk eða mátti fá vitneskju um meint tjón sitt, sbr. 1. mgr. 19. gr. laga um sjúklingatryggingu. Að mati úrskurðarnefndar er með tjóni í ákvæðinu átt við afleiðingar sjúklingatryggingaratviks.

Sjúkratryggingum Íslands barst umsókn kæranda um bætur úr sjúklingatryggingu 2. febrúar 2022. Sjúkratryggingar Íslands telja að kæranda hafi mátt vera tjón sitt ljóst í síðasta lagi þann X þegar hún leitaði á Landspítala og brot í lærhnútunni greindist á röntgenmynd.

Í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála er aðallega á því byggt að kæranda hafi ekki orðið fyllilega ljóst að um varanlegar afleiðingar væri að ræða af sjúklingatryggingaratburðinum fyrr en einhverjum mánuðum eftir aðgerð sem var framkvæmd þann X þar sem plata, sem sett hafði verið í mjöðm hennar, var fjarlægð. Á þeim tímapunkti hafi kæranda orðið fyllilega ljóst að einkennin myndu ekki lagast og að hún hefði orðið fyrir tjóni við sjúklingatryggingaratburðinn. Kærandi telur í öllu falli að miða þurfi við að kæranda hafi í fyrsta lagi orðið ljóst bótaskylt tjón í lokaeftirliti þann X þar sem myndir sýndu enn brot á beininu. Eðlilegra væri að miða við X þegar myndataka hafi sýnt að vöðvafestan hafi fest sig við bein en kærandi hafi þrátt fyrir það verið með einkenni.

Eins og áður hefur komið fram miðast upphaf fyrningarfrests 1. mgr. 19. gr. laga um sjúklingatryggingu við það tímamark þegar tjónþoli fékk eða mátti fá vitneskju um tjón sitt. Það ræður hins vegar ekki úrslitum hvenær kæranda urðu afleiðingarnar ljósar að fullu heldur hvenær hann hafi mátt vita að hann hefði orðið fyrir tjóni, óháð því hversu miklar eða varanlegar afleiðingarnar kynnu að hafa verið.

Fyrir liggur að kærandi fór í gerviliðsaðgerð á mjöðm á C þann X. Lærhnúta í vinstri mjöðm kæranda brotnaði síðan þann X vegna sprungu sem hafði komið í lærhnútu í aðgerðinni. Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefnd velferðarmála að á þessum tíma hafi kæranda mátt vera ljóst tjón sitt, en samkvæmt 1. mgr. 19. gr. hefur ekki þýðingu hvenær kæranda hafi orðið ljóst umfang tjónsins.

Í ljósi alls framangreinds telur úrskurðarnefndin að miða skuli upphaf fyrningarfrests á bótakröfu kæranda í málinu vegna afleiðinga meðferðar á C þann X við X þegar brot greindist í lærhnútu í kjölfar aðgerðarinnar og henni mátti vera ljóst að hún hefði orðið fyrir tjóni. Umsókn kæranda um bætur úr sjúklingatryggingu barst Sjúkratryggingum Íslands 2. febrúar 2022 þegar liðin voru X ár og X mánuðir frá því að hún fékk vitneskju um tjónið.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að Sjúkratryggingum Íslands hafi verið rétt að synja umsókn kæranda um bætur samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu þar sem umsóknin hafi ekki verið lögð fram innan þess fyrningarfrests sem 19. gr. laga nr. 111/2000 kveður á um og sé því fyrnd. Bótaskylda samkvæmt lögum um sjúklingatryggingu vegna þess atviks er því ekki fyrir hendi.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að synja A, um bætur samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum